Search
Mannauðsstefna

Mannauðsstefna

Inngangur

Starfsmannastefna Eirar er leiðarljós fyrir stjórnendur og starfsmenn. Öll starfsemi Eirar grundvallast á þjónustu við íbúa hvort sem þeir búa á hjúkrunarheimilinu eða í öryggisíbúðum.

Ráðningar og kjaramál

  • Lögð er áhersla á að ráða til starfa hæfasta fólk sem völ er á að teknu tilliti til starfs.
  • Val á starfsmönnum byggist á hlutlausum og faglegum vinnubrögðum þar sem meðal annars menntun, reynsla, færni og hæfni til mannlegra samskipta er metin hverju sinni.
  • Ábyrgð starfsmannamála er á hendi yfirmanns á hverju starfssvæði og yfirstjórnenda starfssvæða.
  • Gildandi kjarasamningum er fylgt þegar launakjör eru ákvörðuð. Þess skal gætt að gera ekki upp á milli starfsmanna í kjörum vegna kynferðis, kynþáttar, stjórnmála- eða trúarskoðana eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum.
  • Ráðningarsamningur og/eða starfslýsingar skulu vera skriflegar og undirritaðar af starfsmanni og yfirmanni.

Starfsþróun, fræðsla og starfslok

  • Lögð er áhersla á að styrkja og gefa starfsmönnum tækifæri á starfsþróun ásamt markvissri fræðslu og þjálfun. Starfsmenn eru hvattir til endur – og símenntunar ásamt því að afla sér fagmenntunar.
  • Skipulagning og þróun fræðslu er á höndum þeirra er starfa í Fræðslusetrinu. Sérstök áhersla er lögð á nýliðafræðslu og fræðslu fyrir starfsmenn í umönnun.
  • Möguleikar til starfsþróunar eru jafnir meðal starfsmanna óháð kyni, aldri, trúarskoðunum, þjóðerni eða litarhætti.
  • Ákvörðun um starfslok vegna aldurs er gerð í samráði við starfsmann. Fyrir starfslok er starfsmönnum gefinn kostur á að lækka starfshlutfall eða að færa sig til í starfi, ef mögulegt er.

Móttaka nýliða

  • Mikil áhersla er lögð á að taka vel á móti nýjum starfsmönnum og veita þeim tækifæri til aðlögunar og starfsþjálfunar.
  • Nýráðnir starfsmenn hafa  þriggja mánaða reynslutíma. Á því tímabili skal fara fram viðtal milli starfsmanns og yfirmanns.
  • Starfsfólk er hvatt til að kynna sér kjarasamninga síns stéttarfélags, um réttindi sín og skyldur.

Samskipti

  • Samskipti starfsmanna innan Eirar og utan skulu grundvallast á virðingu fyrir skoðunum og tilveru annarra. Lögð er áhersla á markvisst upplýsingastreymi og að starfsmenn þekki réttar boðleiðir. Við lausn vandamála er höfð hliðsjón af markmiðum starfseminnar og sjónarmiðum starfsmanna.
  • Starfsmannaviðtöl eru á ábyrgð yfirmanna starfssvæða og starfsmanna. Miðað er við að allir starfsmenn taki árlega þátt í starfsmannaviðtali. Tilgangur með samtölunum er að kanna starfsánægju starfsmanns og gefa honum tækifæri til að koma skoðunum sínum og hugmyndum varðandi starfsemina og starfsumhverfi á framfæri.
  • Framkoma sem skapar öðrum óöryggi er ekki umborin. Ef grunur er um einelti eða kynferðislega áreitni er unnið samkvæmt samþykktri viðbragðsáætlun. Fyllsta trúnaðar er gætt varðandi persónuleg og viðkvæm mál starfsmanna.

Heilsa, öryggi og vinnuumhverfi

  • Málefni er snerta heilsu, öryggi og vinnuumhverfi er sameiginlegt verkefni allra starfsmanna.
  • Lögð er áhersla á að umhverfi og aðstæður tryggi öryggi og vellíðan starfsmanna við vinnu. Áhersla er lögð á að starfsfólk fái nauðsynlegan stuðning og handleiðslu við krefjandi störf.
  • Stefnt er að því að styrkja heilbrigði og starfsgetu starfsmanna með því að hafa áhrif á vinnuumhverfið og þekkingu þeirra. M.a. með forvörnum gegn sýkingum, slysum, óhöppum, áreitni og álagseinkennum.
  • Óhöpp og önnur slys starfsmanna eru skráð og er það á ábyrgð starfsmanna jafnt sem stjórnenda að fylgja eftir skráningu.

Fjölskyldustefna

  • Eir leggur áherslu á að veita starfsmönnum ýmsa möguleika varðandi vaktavinnu, hlutastörf eða aðra hagræðingu eftir því sem við verður komið.
  • Reynt er að taka tillit til breyttra fjölskylduaðstæðna t.d. með breytingum á vaktafyrirkomulagi  þegar aðstæður leyfa. Við sérstakar aðstæður geta starfsmenn tekið börnin með sér í vinnu í samráði við yfirmann sinn svo fremi að það hafi ekki truflandi áhrif á þjónustu við íbúa. Starfsmenn eiga kost á að bjóða gestum sínum að borða með sér í matsal. 
  • Leitast er við að veita starfsmönnum stuðning við erfiðar aðstæður.

Jafnrétti

  • Lögð er áhersla á að jafnrétti sé virt í hvívetna. Óheimilt er að mismuna starfsfólki eftir aldri, kyni, þjóðerni, ætterni, efnahag, stjórnmálaskoðunum eða trúarskoðunum.
  • Vinna skal að jafnrétti starfsmanna, efla umræðu og fræðslu um jafnréttismál. Jöfn tækifæri eru fyrir  karla og konur í starfi á Eir. Störf eru ekki flokkuð í karlastörf og kvennastörf. Konur og karlar njóta sömu kjara.

Siðfræði

  • Lögð er áhersla á að starfsmenn virði siðareglur starfsstétta og trúnað gagnvart íbúum og samstarfsfólki um persónuleg og viðkvæm mál. 
  • Trúnaður gagnvart íbúum og samstarfsfólki er grundvöllur góðs samstarfs og samskipta á vinnustað. Trúnaður og þagnarskylda eru skilgreind í lögum og skrifa starfsmenn jafnframt undir þagnarskyldu í ráðningarsamningi.
  • Mikilvægi trúnaðar er rædd á kynningarnámskeiðum fyrir nýja starfsmenn og í annarri fræðslu til starfsmanna. Grundvallaratriði í siðfræði heilbrigðisþjónustunnar eru tilteknar í siðareglum fagstétta sem starfa á Eir.