Velkomin/n á Eir hjúkrunarheimili

Okkur er sönn ánægja að bjóða þig velkomna/velkominn til búsetu hér á Eir hjúkrunarheimili. Hér á eftir fylgja ýmsar upplýsingar um hjúkrunarheimilið sem við vonum að komi þér og aðstandendum þínum að gagni.

Eir hjúkrunarheimili hóf rekstur 1993 og eru átta hjúkrunardeildir á heimilinu og tvær dagþjálfanir fyrir heilabilaða.

Í samvinnu við Landspítalann býður Eir upp á  endurhæfingu, fyrir aldraða eftir brot og liðskiptaaðgerðir, auk fjölþættrar stoðþjónustu.

Eir rekur öryggisíbúðir í Eirarhúsum við Eir, Eirhamra í Mosfellsbæ og Eirborgir við Spöngina í Grafarvogi. Á þessum stöðum er veitt hjúkrunar- og félagsþjónusta til íbúa með samþykkta beiðni um þjónustu.

Aðbúnaður

Á hjúkrunarheimilinu eru átta heimiliseiningar.

Í A húsi eru heimiliseiningarnar með einbýlum og tvíbýlum. Í B húsi eru einbýli. Í sambýlinu Eirarholti, sem er í Eirarhúsum, eru einbýli og fjölbýli. Möguleiki er á hjónaherbergi.

Eins og að framan er greint getum við ekki boðið öllum einbýli. Í starfi okkar er reynt að hafa að leiðarljósi jafnrétti og velferð allra heimilismanna. Vegna þessa áskiljum við okkur rétt til að gera breytingar á herbergjaskipan og gera tilfærslur milli eininga ef ákveðnar aðstæður skapast. Lagt er fyrir sjónvarpi og síma í öll herbergi ásamt þráðlausu Interneti. Eir leggur til rúm, rúmfatnað og náttborð, en að öðru leyti sér viðkomandi um að búa herbergi sitt eftir eigin óskum. Hafa þarf í huga að skapa  gott vinnurými fyrir starfsfólk. Jafnframt getur komið upp sú staða að gera þurfi tilfæringar á húsgögnum ef heimilismaður veikist alvarlega.

Við vekjum athygli ykkar á því að Eir tekur ekki ábyrgð á persónulegum eigum heimilismanns eða fjármunum.

Hjúkrun

Framkvæmdastjóri hjúkrunar ber ábyrgð á þeirri hjúkrun og umönnun sem veitt er á heimilinu.

Hjúkrunardeildarstjórar eru ábyrgir fyrir hjúkrun, umönnun og daglegu umfangi á deildum.

Hjúkrunarráð sem skipað er ofantöldum aðilum, ásamt forstöðumanni hjúkrunar, skipuleggur og stjórnar hjúkrunarþjónustunni á heimilinu.

Hjúkrunarfræðingar bera ábyrgð á hjúkrunarþjónustunni allan sólarhringinn.

Sjúkraliðar, félagsliðar og umönnunar­starfs­menn annast umönnun í hjúkrun eftir þörfum hvers og eins, á ábyrgð hjúkrunarfræðings á vakt.

Læknisþjónusta

Framkvæmdastjóri lækninga ber ábyrgð á læknisþjónustu heimilisins. Hver heimiliseining hefur sinn lækni sem kemur á stofugang einu sinni í viku. Á heimilinu er læknir frá kl. 8:00-12:00 alla virka daga. Bakvakt er allan sólarhringinn og læknir kemur við á öllum heimiliseiningum um helgar og á hátíðisdögum. Í gildi er samningur við tannlækni, augnlækni, kvensjúkdómalækni og húðsjúkdómalækni. Ef þörf er á þjónustu annarra sérfræðinga sér læknir íbúans um þau samskipti.

Ef heimilismaður þarf að sækja þjónustu utan heimilisins er gert ráð fyrir að aðstandandi fylgi viðkomandi.

Ef heimilismaður þarf að sækja þjónustu utan heimilisins er gert ráð fyrir að aðstandandi fylgi viðkomandi.

Sjúkraþjálfun

Heimilismönnum stendur til boða sjúkraþjálfun samkvæmt beiðni læknis íbúans.

Iðjuþjálfun og félagsstarf

Heimilismönnum stendur til boða iðjuþjálfun samkvæmt beiðni læknis. Veitt er einstaklingsþjálfun þar sem reynt er að veita heimilismönnum tækifæri til þátttöku og virkja einstaklinginn í þeirri iðju sem hefur þýðingu fyrir hann og veitir honum ánægju.

Í vinnustofu eru viðfangsefnin mörg og  mismunandi eftir áhugasviði íbúa og árstíðabundnum verkefnum. Í boði er skipulagt félagstarf á heimiliseiningum.

Íbúum heimilisins standa til boða ýmis afþreying s.s. samkomur, söngskemmtanir, og árstíðartengdar skemmtanir.

Sálgæsla

Íbúar heimilisins geta óskað eftir sálgæslu prests frá Grafarvogssókn. Einnig er hægt að óska eftir þjónustu annarra presta eða aðila frá öðrum trúfélögum.
Guðsþjónusta er haldin einu sinni í mánuði á torginu á 1.h. Eirar. Hátíðarmessur eru á jóla- og páskadegi.

Fatnaður og þvottur

Heimilismenn sjá sér fyrir hentugum og góðum fatnaði. Mikilvægt er að huga að góðum inniskóm sem falla vel að fæti, lágbotna með stömum sóla, sitji fast á fæti og lofti vel. Hafi heimilismaður getu og óskir um að stunda útiveru er mikilvægt að hann hafi yfirhöfn og góða skó.

Eir leggur til rúmfatnað og handklæði sé þess óskað.

Heimilið annast þvott á persónulegum fatnaði íbúa nema samkomulag sé um annað. Reynsla heimilisins er sú að aðstandendur kjósa oft að annast þvottinn sjálfir. Einungis er hægt að þvo fatnað á heimilinu sem má fara í þvottavél og þurrkara.

Heimilið ber ekki ábyrgð á meðferð á persónulegum fatnaði, verði hann fyrir skemmdum á þvotti. Íbúar leggja til eigin óhreinatauskörfu.

Heimilismaður leggur til snyrtivörur til eigin nota, svo sem sjampó, svitalyktareyði, tannbursta, tannkrem og rakvél. Mikilvægt er að tannburstar séu endurnýjaðir þrisvar til fjórum sinnum á ári. Rafmagnstannburstar geta verið heppilegir fyrir suma.

Önnur þjónusta

Þjónusta hjá hárgreiðslustofu, fótaaðgerðarstofu og snyrtifræðingi er í boði gegn greiðslu. Þessi þjónusta er oft mjög mikilvæg og getur aukið vellíðan heimilismanna.

Framkvæmdastjórn

Sigurður Rúnar Sigurjónsson, forstjóri
Kristín Högnadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar                            
Sigurbjörn Björnsson, framkvæmdastjóri lækninga
Stella Kristín Víðisdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs

Símanúmer á deildir

Deild Vaktsími Deildarstjórasími
2. hæð norður 522 5721 522 5722
2. hæð suður 522 5725 522 5726
3. hæð norður 552 5731 522 5732
3. hæð suður 552 5735 552 5736
4. hæð 522 5741 522 5749
Eirarholt 522 5792 522 5722
1. hæð B 522 5710 522 5717
2. hæð B 522 5720 522 5727
3. hæð B 522 5738 522 5730

Greiðsluþátttaka

Heimilismenn geta þurft að borga kostnaðarþátttöku, en það er hlutdeild í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili. Eir innheimtir fyrir Tryggingastofnun ríkisins kostnaðarþátttöku heimilismanna, en Tryggingastofnun reiknar út kostnaðarþátttökuna og veitir nánari upplýsingar um útreikningana í síma 560 4400.

Aðstandendur sem þurfa að hafa samband við Eir vegna greiðsluþátttöku heimilismanna geta haft samband við bókhalds- og launadeild Eirar í síma 522 5700 eða á netfangið skrifstofa@eir.is.

Nánari upplýsingar um kostnaðarþátttöku má finna á heimasíðu TR: www.tr.is/65/dvol-a-stofnun.