22. apríl 2020
Ágæti aðstandandi
Heimsóknir verða leyfðar inn á Eir, Skjól og Hamra frá og með 4. mai næstkomandi með ákveðnum takmörkunum. Þó mikið hafi áunnist í baráttunni gegn COVID-19 erum við ekki komin í höfn og sýna þarf ítrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum. Einnig er nauðsynlegt að takmarka þann fjölda sem kemur inn í heimilið á hverjum tíma. Vonir eru bundnar við að heimsóknir verði rýmkaðar enn frekar í júní 2020.
Vinsamlega kynnið ykkur vel eftirfarandi heimsóknarreglur:
- Ekki panta heimsóknartíma og alls ekki koma í heimsókn ef:
- Þú ert í sóttkví
- Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku
- Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
- Þú ert með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).
- Heimsóknartími er frá: 10:30-11:30, 13:30-14:30 og 16:30-17:30.
- Hafið samband við deildarstjóra á viðkomandi deild og pantið heimsóknartíma í gegnum tölvupóst. Heimild til heimsókna, einu sinni í viku er veitt frá 4. maí. Einungis er heimilt að einn aðstandandi komi í heimsókn vikulega. Ef vel gengur í baráttunni við veiruna, verður tíðni heimsókna aukin.
- Við hvetjum ykkur til að hlaða niður í símana ykkar smitrakningnarappi almannavarna Rakning C-19 fyrir 4. maí
- Hinkrið eftir starfsmanni á tilgreindum inngöngustað hann fylgir ykkur til íbúa. Munið að þvo og/eða spritta hendur áður en heimsókn hefst og að henni lokinni. Ekki koma við neitt í almannarýmum, farið beint inn til íbúa og beint út aftur.
- Athugið að heimsóknin er til ættingja þíns, staldrið ekki við til að ræða við aðra íbúa, ættingja eða starfsfólk, hægt er að hringja á deild eftir upplýsingum eða senda tölvupóst.
- Virðið 2ja metra regluna og forðist snertingu við íbúa eins og hægt er.
Aðrar breytingar sem verða frá 4.maí á starfsemi innan hjúkrunarheimila
Iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, önnur þjálfun: Einstaklingsmeðferð verður fyrir íbúa og starfsfólk á heimilinu. Einstaklingar utan úr bæ mega ekki koma inn á heimili til þjálfunar fyrr en frekari tilslakanir verða. Í sal sjúkraþjálfunar er nauðsynlegt að halda 2ja metra reglunni áfram og hámarksfjöldi í sal miðast við að þessi regla haldi. Hópameðferð skal áfram vera takmörkuð við að einstaklingar í sama sóttvarnahólfi séu saman við æfingar.
Hárgreiðsla og hársnyrting/fótaaðgerð og fótsnyrting: Er aðeins leyfð fyrir heimilismenn og starfsmenn á hverjum tíma. Einstaklingar utan úr bæ mega ekki koma inn á heimilið til að fá þessa þjónustu. Gæta þarf vel að aðskilnaði íbúa frá utanaðkomandi gestum. Almenna reglan er áfram að einstaklingar í sama sóttvarnahólfi fái þjónustu á sama tíma.
ATHUGIÐ: Ef smit vegna COVID-19 aukast aftur, eða smit vegna annarra smitsjúkdóma, munu tilslakanir á heimsóknarbanni ganga til baka og reglur verða hertar á ný.