Search
Endurhæfing á Eir

Endurhæfing á Eir

Í samvinnu við Landspítala Háskólasjúkrahús býður Eir einstaklingum eldri en 67 ára upp á tímabundna endurhæfingu eftir beinbrot, liðskiptaaðgerðir eða önnur veikindi.  Markmið endurhæfingarinnar er að viðkomandi nái heilsu og færni til að útskrifast heim að endurhæfingu lokinni. Dvalartími er einstaklingsbundinn, gjarnan fáeinar vikur. 

Aðbúnaður 

Endurhæfingarplássin eru á 4. hæð í  A-húsi. Á deildinni eru átta þríbýli og tíu tvíbýli. Í miðrými er stór matsalur með fallegu útsýni. Setustofur eru tvær og er þar hægt að lesa blöðin, spjalla eða horfa á sjónvarp. Auk þess er stór samkomusalur á 1. hæð þar sem vikulega eru skemmtilegar uppákomur. 

Hjúkrunar- og læknisþjónusta 

Veitt er hjúkrun og umönnun eftir þörfum viðkomandi, allan sólarhringinn. Læknir kemur daglega á deildina og er teymisfundur og stofugangur einu sinni í viku. Auk þess er læknir á bakvakt allan sólarhringinn og sinnir bráðatilfellum. 

Sjúkra- og iðjuþjálfun 

Sjúkra- og iðjuþjálfun er opin virka daga kl 15:30 og er staðsett á 3. hæð í B-húsi. Sjúkraþjálfun er sniðin að þörfum hvers og eins og miðar að því að auka færni, bæta jafnvægi, styrk og úthald. Iðjuþjálfarar meta færni og getu skjólstæðings til eigin umsjár, meta hjálpartækjaþörf og ýta þannig undir sjálfsbjargargetu í daglegu lífi.  

Sjúkra- og iðjuþjálfarar starfa náið saman og meta t.a.m. þörf fyrir heimilisathuganir. Í heimilisathugun, skjólstæðingur fer með til að hægt sé að veita ráðgjöf um breytingar á umhverfi einstaklingins til að minnka byltuhættu og auka öryggi hans. Þar að auki er þörf fyrir hjálpartæki metin og veitt ráðgjöf um notkun þeirra. Æskilegt er að aðstandendur séu viðstaddir.  

Félagsráðgjöf  

Félagsráðgjafi veitir upplýsingar um ýmis úrræði svo sem húsnæði, tryggingabætur o.fl. Viðtöl eru veitt eftir samkomulagi.  

Dýrahald 

Gæludýr eru ekki leyfð á deildinni. 

Matmálstímar 

  1. 09 morgunmatur (hlaðborð)
  2. 12 hádegismatur (heit máltíð)
  3. 15 kaffi og meðlæti
  4. 18 kvöldmatur (létt máltíð)
  5. 20 kvöldhressing/ávextir

Æskilegt er að hafa með sér: 

  • Þægilegan innifatnað sem hentar vel í sjúkraþjálfun og föt til skiptanna. 
  • Náttslopp, náttföt, sokka, nærföt og góða inniskó sem haldast vel á fæti. 
  • Snyrtivörur, sjampó og krem. 
  • Rúmteppi og værðarvoð.  
  • Yfirhöfn og útiskó. 
  • Hjálpartæki sem viðkomandi notar, t.d. göngugrind, griptöng, sokkaífæru eða sessu.  

Eir leggur til rúmfatnað, handklæði og óhreinatauskörfu. Aðstandendur sjá um að þvo persónulegan þvott.  

Fyrir útskrift 

Hjúkrunarfræðingar sækja um heimahjúkrun, félagsþjónustu (innlit og þrif), lyfjatiltekt og aðra þjónustu ef með þarf. 

Iðju- og sjúkraþjálfarar panta hjálpartæki frá Sjúkratryggingum þar sem við á. 

Útskriftir eru ávallt kl.11:00. 

Heimsóknatími er frá kl. 15-18 alla virka daga en frá 13-18 um helgar. Biðjum ættingja um að virða heimsóknartíma.