Á Eir hefur verið starfandi brota-endurhæfingardeild fyrir aldraða um langt skeið með góðum árangri. Svo góðum árangri reyndar að haustið 2022 stækkuðum við deildina um helming og getum núna sinnt 44 skjólstæðingum á hverjum tíma sem þurfa á endurhæfingu að halda, bæði vegna brota og annarra heilsufarslega áfalla.
Deildin sinnir eldri sjúkingum sem orðið hafa fyrir færniskerðingu eftir brot eða önnur bráð heilsufarsáföll og lagst hafa inn Landspítalann, einnig einstaklingum eftir valkvæðar liðskiptaaðgerðir og einstaklingum með langvinna færniskerðingu eða öldrunartengd vandamál sem vísað er til endurhæfingar frá Göngudeild öldrunarlækninga.
Á deildinni fer fram fjölþætt og fjölfagleg öldrunarendurhæfing með endurhæfingarteymi , einstaklingshæfðri endurhæfingu og útkriftaráætlunum.
Markmið endurhæfingar er að vinna upp tapaða færni vegna bráðaveikinda og vinna gegn ellihrumleika og einkennum langvinnra sjúkdóma. Með góðri endurhæfingu má seinka eða jafnvel koma í veg fyrir þörf á hjúkrunarrými.
Það er gaman að segja frá því að árinu 2023 tókum við á móti tæplega 400 skjólstæðingum, langflestum frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi og 82% þeirra útskrifuðust aftur heim eftir vel heppnaða endurhæfingu.
Góð endurhæfing viðheldur og jafnvel eykur lífsgæði skjólstæðinga sem geta notið sín og leik og starfi á sínum eigin forsendum.