Search
Um Eir

Um Eir

Í norrænni goðafræði segir frá gyðju sem sat á fjallinu Lyfjabergi þar sem sárir og sjúkir fengu lækningu meina sinna. Þessi gyðja hét Eir.

Eir hjúkrunarheimili í Grafarvogi tók til starfa árið 1993, en undirbúningur hafði staðið frá árinu 1990. Eir er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var á grundvelli samfélagslegra hugsjóna, án allra hagnaðarsjónarmiða. Tilgangurinn með stofnun Eirar var að veita framúrskarandi öldrunarþjónustu til hrumra og veikra sem eru í þörf fyrir slíka þjónustu. Að baki stofnuninni stendur fjölmennt fulltrúaráð einstaklinga sem tilnefndir eru til setu í ráðinu af ýmsum lögaðilum, sveitarfélögum, stéttarfélögum, félögum eldri borgara og öðrum almannaheilla félögum. Fulltrúaráðið kýs stjórn stofnunarinnar og hefur ákveðið eftirlit með starfsemi hennar.

Á vegum Eirar er veitt umfangsmikil og fjölbreytt þjónusta fyrir elda fólk í þjónustuþörf á ýmsum stigum. Þar er rekin sérstök endurhæfingardeild með 44 rýmum, auk þess sem rekin eru 141 hjúkrunarrými. Þá sér Eir um rekstur sérhæfðra dagþjálfana fyrir einstaklinga með heilabilun á ýmsum stigum sem og almenna dagdvalarþjónustu.

Í tengslum við Eir eru reknar tæplega 200 öryggisíbúðir á tveimur stöðum í Grafarvogi, Eirarhúsum og Eirborgum og í Mosfellsbæ á Eirhömrum. Einstaklingar sem sækjast eftir að komast í öryggisíbúð eiga það sameiginlegt að vilja tryggja öryggi sitt í góðu umhverfi, þar sem, til staðar er fagþjónusta og úrræði sem þeir eru í þörf fyrir og eiga rétt á hverju sinni. Í íbúðunum er öryggiskerfi sem starfsmenn Eirar sinna útköllum í, en Eir sér einnig um samþætta heimaþjónustu, bæði heimahjúkrun og stoðþjónustu til íbúa í öryggisíbúðum Eirar, sem og veitir stoðþjónustu til íbúa Mosfellsbæjar. Sú þjónusta er unnin samkvæmt samningum við sveitarfélög og heilsugæslu og í samræmi við þær kröfur sem þeir aðilar leggja til grundvallar. Þessi samþætting á þjónustu er einstæð á höfuðborgarsvæðinu en með þessu er leitast við að gera aðilum kleift að búa á sínu heimili sem allra lengst.

Eir hjúkrunarheimili er aðili að Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). SFV voru stofnuð þann 24. apríl 2002 og eru flest aðildarfélög samtakanna fyrirtæki sem eru ekki ríkisfyrirtæki og starfa við velferðarþjónustu samkvæmt þjónustusamningi eða öðrum tengdum greiðslum frá ríkinu.