Search
Um Hamra

Um Hamra

Hamrar hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ var opnað þann 27. júní 2013. Upphafið að stofnun heimilisins má rekja til samkomulags frá árinu 2005 milli Mosfellsbæjar og Eirar hjúkrunarheimilis um uppbyggingu og rekstur þjónustu við eldra fólk í Mosfellsbæ. Í tengslum við það samkomulag tók Eir að sér að byggja, kaupa og reka öryggisíbúðir við Hlaðhamra 2 og annast rekstur þjónustumiðstöðvar fyrir aldraða og félagslega heimaþjónustu. Einnig kvað samningurinn á um að Eir hjúkrunarheimili skyldi byggja og annast rekstur hjúkrunarheimilis að fengnu tilskyldu leyfi frá heilbrigðisyfirvöldum.

Markmið samstarfs Eirar og Mosfellsbæjar var að bjóða eldra fólki í bæjarfélaginu valkost þar sem öryggi þess er tryggt eftir fremsta megni og veita þjónustu sem gerir því kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði. Bygging hjúkrunarheimilis í tengslum við íbúðirnar, þar sem innangengt væri í íbúðir og þjónustumiðstöð, var ætlað að auðvelda samskipti íbúa húsanna. Mosfellsbær og félags – og tryggingamálaráðuneytið undirrituðu samning þann 23. apríl 2010 um byggingu og þátttöku í leigu hjúkrunarheimilisins sem tengjast ætti við íbúðirnar og þjónustumiðstöðina og hófst bygging hjúkrunarheimilisins skömmu síðar.

Hamrar hjúkrunarheimili ehf. er dótturfélag Eirar sjálfseignarstofnunar og er því ekki hagnaðardrifið einkahlutafélag. Samkvæmt samþykktum Hamra hjúkrunarheimilis ehf. skal hagnaði þess eingöngu varið til almenningsheilla á sviði öldrunar -, heilbrigðis-, menntunar – og menningarmála, einkum er lúta að velferðar aldraðra.

Á Hömrum eru í dag rekin 33 hjúkrunarrými.

Hamrar hjúkrunarheimili er aðili að Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). SFV voru stofnuð þann 24. apríl 2002 og eru flest aðildarfélög samtakanna fyrirtæki sem eru ekki ríkisfyrirtæki og starfa við velferðarþjónustu samkvæmt þjónustusamningi eða öðrum tengdum greiðslum frá ríkinu.