Skjól er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var á grundvelli samfélagslegra hugsjóna, án allra hagnaðarsjónarmiða. Upphaf Skjóls má rekja til umræðna sem spunnust um úrræðaleysi í málefnum aldraða í kjölfar árs þess ,,sem ellinni var tileinkað“ 1983. Umræður hófust fyrir alvöru í Öldrunarráði Íslands um söfnun fjár til stofnunar húsnðis fyrir aldraða í Reykjavík. Sjómannadagsráð lét svo í té lóð fyrir heimilið í Laugarási ,,af áhuga fyrir málefninu og vinsemd og tiltrú til Öldrunarráðs Íslands“. Varð svo úr að stofnuð var sérstök sjálfseignarstofnun fyrir rekstur heimilisins sem skyldi verða fyrsta hjúkrunarheimilið í Reykjavík sem byggt yrði frá grunni með hjúkrunarrými eingöngu. Skjól hjúkrunarheimili var í byggingu árin 1986-1990 en vígsla fór fram 1. desember 1987. Starfsemin hófst 22. janúar 1988 en þá fluttu fyrstu heimilismenn inn á heimilið. Þá var Laugaskjól stofnað sem sambýli fyrir fólk með heilabilun í mars 1992, en það hefur frá upphafi verið rekið af Skjóli.
Á vegum Skjóls eru í dag rekin um 106 hjúkrunarrými. Að baki stofnuninni stendur fulltrúaráð stofnunarinnar skipað 18 einstaklinga sem tilnefndir eru til setu í ráðinu af stofnaðilum, þ.e. Reykjavíkurborg, ASÍ, SLRB, Þjóðkirkjunni, Sjómannadagsráði og Bændasamtökum Íslands. Fulltrúaráðið kýs stjórn stofnunarinnar og hefur ákveðið eftirlit með starfsemi hennar.
Skjól er stofnaðili að hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi, sem var opnað árið 1993.
Þá er Skjól aðili að Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). SFV voru stofnuð þann 24. apríl 2002 og eru flest aðildarfélög samtakanna fyrirtæki sem eru ekki ríkisfyrirtæki og starfa við velferðarþjónustu samkvæmt þjónustusamningi eða öðrum tengdum greiðslum frá ríkinu.