Takmarkanir á heimsóknum vegna Covid-19 – uppfærðar leiðbeiningar
Heilir og sælir kæru aðstandendur,
Í næstu viku verða þeir íbúar sem þáðu fyrstu bólusetninguna gegn COVID-19 bólusettir í annað sinn. Viku eftir það getum við gert ráð fyrir að íbúar hafi náð fullnægjandi mótefnasvari gegn veirunni. Þá verður mögulega vonandi hægt að fara í frekari tilslakanir varðandi heimsóknir og bæjarferðir. Hafa verður þó í huga að starfsfólk heimilanna hefur ekki enn verið bólusett né er vitað nákvæmlega hvenær það verður. Við þurfum því áfram verja starfsfólkið með það að markmiði að ekki komi til skerðingar á þjónustu við íbúa.
Næstu tvær vikurnar, hið minnsta, gilda því eftirfarandi heimsóknarreglur:
- Húsið verður áfram læst og boða þarf komu sína
- Heimsóknartími er á milli 15:00 og 18:00 á hverjum degi.
- Áfram þarf að skrásetja komu sína í hvert sinn
- Aðeins einn gestur má heimsækja hvern íbúa, tvisvar í viku í klukkutíma í senn
- Óskað er eftir því að það sé alltaf sami gestur og sá hinn sami sé nánast í sjálfskipaðri sóttkví. Skipta má vikulega um gest.
- Gestur notar viðurkennda grímu að heiman. Ekki er leyfilegt að bera margnota grímu.
- Börn undir 18 ára hafa ekki leyfi til að koma í heimsókn. Kornabörn eru undanskilin.
- Gestir eru beðnir að gæta að 2ja metra reglunni og forðast beina snertingu við íbúa.
- Gestir eru beðnir um að spritta hendur sínar í upphafi heimsóknar og fyrir og eftir snertingu við sameiginlega fleti, s.s. lyftuhnappa, hurðarhúna, handrið o.fl..
- Gestir fara stystu leið beint inn á herbergi íbúans og stystu leið út.
- Stranglega bannað er að dvelja í sameiginlegum rýmum heimilisins.
- Heimilt er að fara með íbúa í göngutúr í nærumhverfi á meðan á heimsókn stendur en ekki er heimilt að fara í bíltúr eða heimsóknir með gesti sínum nema til að sinna áríðandi erindum, s.s. læknisheimsóknum.
Undir sérstökum kringumstæðum er hægt að veita undanþágu frá þessum reglum og er það deildarstjóri eða hjúkrunarfræðingur á vaktinni sem tekur slíkar ákvarðanir.
Sem fyrr er mikilvægt að hafa í huga að gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir:
- eru í sóttkví
- eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku)
- hafa dvalið erlendis og ekki liggja fyrir neikvæðar niðurstöður úr tveimur skimunum
- hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift
- eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).
Aðstandendur eru hvattir til að hlaða niður smitrakningarappi almannavarna.
Við þökkum skilningin, tillitssemina og samstöðuna.