Iðjuþjálfun og félagsstarf

Iðjuþjálfun og félagsstarf á hjúkrunarheimilinu Eir hefur það að markmiði að veita íbúum heimilisins tækifæri til þátttöku í þeirri iðju sem hefur þýðingu fyrir þá og veitir þeim lífsfyllingu. Boðið er upp á einstaklingsþjálfun sem og hópaþjálfun þar sem iðja er höfð í forgrunni. Starfsemin fer ýmist fram í vinnustofu iðjuþjálfunar eða á deildum íbúa. Iðjuþjálfar sjá einnig um hjálpartæki, ásamt sjúkraþjálfara, m.a. meta þörf fyrir hjólastóla og sessur í þá.

Markmið iðjuþjálfunar er að auka þátttöku, viðhalda og/eða efla færni einstaklings í þeirri iðju sem hann hefur áhuga á og vilja og geta framkvæmt.

Mikið og virkt félagsstarf er í húsinu þar sem reglulega eru haldnar skemmtanir og ýmsar uppákomur á Torginu. Markmið félagsstarfsins er að gefa tækifæri til þátttöku til að auka lífsgæði, val, sjálfstæði og gleði. Vikulega er m.a. bingó og söngstund og er ávallt góð mæting.

Iðjuþjálfar sinna skjólstæðingum endurhæfingardeildar en þar er samstarf við Landspítala Háskólasjúkrahús um endurhæfingu aldraðra sem hlotið hafa beinbrot og útskrifast síðan heim. Markmið iðjuþjálfunar á enduhæfingardeild er að stuðla að því að skjólstæðingurinn verði eins sjálfbjarga og mögulegt er. Íhlutun iðjuþjálfa felst m.a. í mati á færni daglegs lífs, fara í heimilisathuganir þar sem veitt er ráðgjöf um úrbætur til að minnka byltuhættur á heimilinu og hjálpartækjaþörf metin. Iðjuþjálfar sækja einnig um hjálpartæki til Hjálpartækjamiðstöðvar SÍ og hafa eftirfylgni með þeim.

Á deildinni eru 7 starfsmenn, þar af 5 iðjuþjálfar, einn umsjónarmaður félagsstarfs og einn aðstoðarmaður.

Samvinna er við Háskólann á Akureyri um vettvangsnámspláss í iðjuþjálfun á Eir.

Yfiriðjuþjálfi er:
Ása Lind Þorgeirsdóttir
Netfang: asalind@eir.is

Starfsmaður félagsstarfs er:
Hanna Sigurrós Ásmundsdóttir
Netfang: vinnustofa@eir.is

Símanúmer iðjuþjálfunar er 522-5747 og 522-5748.