Að flytjast á hjúkrunarheimili eru mikil viðbrigði og er okkar ósk að búsetan verði farsæl og ánægjuleg. Markmið hjúkrunar er að tryggja öryggi og vellíðan íbúa ásamt því að standa vörð um sjálfsmynd þeirra og sjálfvirðingu. Veitt er fagleg þjónusta sem tekur mið að þörfum íbúanna og hefur jákvæð áhrif á heilsu fólks þar sem unnið er eftir persónumiðari nálgun í samvinnu við íbúa og aðstandendur þeirra. Áhersla er lögð á að stuðla að sem bestri líkamlegri og andlegri heilsu íbúa og á heimilunum er mjög virkt starf og hvetjum við alla til að taka þátt í félagsstarfi, iðjuþjálfun og þeirri sjúkraþjálfun sem í boði er. Markviss þjálfun og hreyfing eykur lífsgæði íbúa.
Við breytingu á líðan íbúa er meginstefnan að meðhöndla veikindi á heimilunum og líkna og hjúkra heimilismönnum innan veggja þess. Við leitumst við að: – Veita persónulega þjónustu á faglegan og ábyrgan hátt – Tryggja vellíðan og öryggi íbúa, standa vörð um sjálfvirðingu og ákvörðunarrétt þeirra – Aðstoða íbúa við að aðlagast breyttum aðstæðum í heimilislegu umhverfi – Viðhalda sjálfsbjargargetu og færni með líkamlegri og andlegri þjálfun – Stuðla að góðu og persónulegu sambandi við ættingja
Einkunnarorð heimilanna eru virðing, vellíðan og virkni og við höfum það að leiðarljósi að efla lífsgæði hvers einstaklings hverju sinni.