,,Þótt sjálf jólahátíðin hæfist ekki fyrr en á miðjum aftni á aðfangadag, var undirbúningur hennar á fullu skriði dagana áður. Þá þurfti að ljúka við að þrífa bæinn hátt og lágt, þvo rúmföt og nærföt. Þá voru og seinustu forvöð að steypa jólakertin. Alsiða var að sjóða jólahangiketið á Þorláksmessu og sumstaðar var fólki leyft að bragða á því eða hangiflotinu. Allt þetta tilstand olli því að fólk hlakkaði til Þorláksmessunnar líkt og sjálfra jólanna. Af þeim sökum var dagurinn fyrir Þorláksmessu sumstaðar kallaður hlakkandi. Þekktasti réttur á Þorláksmessu er auðvitað skata sem áður fyrr mun hvergi hafa þótt neitt lostæti. Svo fór þó með tímanum að fólk lærði að gera sér gott af skötunni og sumum fór að þykja hún ómissandi þáttur í jólahaldinu“ (texti fenginn af Vísindavefnum).
Hér á Eir var engin undantekning á hefðinni og það fór ekki fram hjá neinum hvað var í matinn í dag. Nokkur andköf voru tekin en skatan rann ljúft niður hjá íbúum sem höfðu ýmist orð á að hún væri helst til mild eða ansi kæst!! Allir voru þó sammála um að hún hefði verið bragðgóð 🙂