Tilkynning frá stjórn hjúkrunarheimilanna Eirar, Skjóls og Hamra:
„Stjórnir hjúkrunarheimilanna Eirar, Skjóls og Hamra hafa ráðið Eybjörgu Helgu Hauksdóttur í stöðu forstjóra hjúkrunarheimilanna frá og með 1. desember n.k. Eybjörg verður fjórði forstjóri heimilanna og jafnframt fyrsta konan til að gegna því starfi. Ráðningarferlið var unnið í samstarfi við ráðgjafa- og ráðningarfyrirtækið Hagvang.
Eybjörg hefur starfað sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Eirar, Skjóls og Hamra síðan 2021, auk þess sem hún gegndi einnig starfi framkvæmdastjóra Eir öryggisíbúða ehf. fyrstu tvö árin. Á árunum 2015 – 2021 starfaði hún sem framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Þar sat hún í samninganefndum SFV um gerð þjónustusamninga ríkisins við hjúkrunarheimili landsins, samninganefnd SFV um dagdvalarþjónustu og stýrði kjarasamningagerð samtakanna. Eybjörg er lögfræðingur að mennt, er með BA og MA gráður frá lagadeild Háskóla Íslands, auk réttinda sem héraðsdómslögmaður.
Um leið og stjórnir hjúkrunarheimilanna bjóða Eybjörgu velkomna til nýrra starfa, vilja þær færa fráfarandi forstjóra, Sigurði Rúnari Sigurjónssyni, innilegar þakkir fyrir frábær stöf í þágu hjúkrunarheimilanna undanfarin 13 ár, þar sem á tímabili var tekist á við mikla erfiðleika, sem enduðu með sigri.
Fram til 1. desember munu núverandi og tilvonandi forstjóri vinna náið saman að yfirfærslu starfsins.“
Halldóra Ólafsdóttir, stjórnaformaður Skjóls hjúkrunarheimilis
Ólafur Haraldsson, stjórnarformaður Eirar og Hamra