Search
Stefna gegn einelti

Stefna gegn einelti

Markmið Eirar er að bjóða upp á öruggan vinnustað þar sem gagnkvæm virðing ríkir meðal starfsmanna og umburðarlyndi er gagnvart fjölbreytileika innan starfsmannahópsins. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og annað ofbeldi er ekki liðið innan heimilanna. Meðvirkni í einelti, kynferðislegri áreitni eða öðru ofbeldi er einnig fordæmd. Ef upp kemur tilfelli eða grunur um að einelti, kynferðisleg áreitni og/eða annað líkamlegt eða andlegt ofbeldi eigi sér stað á vinnustað skal bregðast við því með viðeigandi hætti líkt og fjallað er um hér.

Einelti og áreitni

Einelti er skilgreint sem ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir samkvæmt reglugerð nr. 1009/2015. Mikilvægt er að hafa í huga að einelti er endurtekin neikvæð framkoma sem veldur vanlíðan þolandans en ekki einangruð tilvik.

 

Eineltisáætlun Eirar

Þolandi eineltis eða starfsmenn sem verða vitni að einelti greina næsta yfirmanni frá eineltinu. Yfirmaður viðkomandi deildar kallar síðan til mannauðsstjóra og/eða trúnaðarmann sem í sameiningu tala við þolandann. Ef sannað þykir að einelti eigi sér stað er gerandinn kallaður á fund. Þar er gerandanum tjáð í hverju eineltið er fólgið, honum gerð grein fyrir því að einelti sé ekki liðið hjá stofnuninni og honum gert að breyta hegðun sinni. Ef gerendur eru fleiri en einn er talað við þá í sitthvoru lagi. Ef gerandi er næsti yfirmaður eða annar yfirmaður getur þolandi snúið sér beint til mannauðsstjóra og/eða trúnaðarmanns. Sjá myndrænt viðbragðsferil við einelti á mynd 1.

Ef einelti heldur áfram þrátt fyrir inngrip stjórnenda er formlegt áminningarferli virkjað og brugðist við með aðgerðum til að draga úr vanlíðan þolanda. Mannauðsstjóri og yfirmaður deildar tryggja að málum sé fylgt eftir í þeim tilgangi að tryggja að umrædd háttsemi endurtaki sig ekki. Ef eineltinu linnir ekki verður geranda/gerendum vikið úr starfi.

Mynd 1: Viðbragðsáætlun við einelti

Kynferðisleg áreitni

Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður, hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess eða þeirra sem fyrir henni verða og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt (Jafnréttisráð, 2008).

Viðbragðsáætlun við kynferðislegri áreitni

Þolandi kynferðislegrar áreitni eða starfsmenn sem verða vitni að slíku greina næsta yfirmanni frá því. Yfirmaður viðkomandi deildar kallar til mannauðsstjóra og/eða trúnaðarmann. Ef sannað þykir að kynferðisleg áreitni hafi átt sér stað er gerandinn kallaður á fund með mannauðsstjóra. Þar er gerandanum tjáð í hverju áreitnin er fólgin, honum gerð grein fyrir því að kynferðisleg áreitni sé ekki liðin hjá stofnuninni og geranda/gerendum vikið úr starfi fyrirvaralaust. Ef sönnun liggur ekki fyrir verknaðinum er hinum grunaða gert grein fyrir umkvörtuninni og alvarleika málsins. Ef gerendur eru fleiri en einn er talað við þá í sitthvoru lagi. Ef gerandi er næsti yfirmaður eða annar yfirmaður getur þolandi snúið sér beint til mannauðsstjóra og/eða trúnaðarmanns. Sjá einnig viðbragðsáætlun við kynferðislegri áreitni á mynd 2.

Mynd 2: Viðbragðsáætlun við kynferðislegri áreitni

Lögregla

Kæra má kynferðislega áreitni og ofbeldi til lögreglu en fjallað er um slík brot í almennum hegningarlögum. Málsmeðferðin sem leiðir af lögunum er ólík því sem að framan greinir þar sem kvörtun eða öllu heldur kæra vegna slíkrar hegðunar beinist ekki gegn atvinnurekanda heldur meintum geranda. Kynferðisleg áreitni í skilningi almennra hegningarlaga getur varðað fangelsisdómi allt að tveimur árum. Ljóst er af skilgreiningu hegningarlaga um kynferðislega áreitni að lögin taka til alvarlegri tilvika en þar segir að hún felist m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan og táknrænni hegðun eða orðbragði sem er meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að vekja ótta (Jafnréttisráð, 2008).