Search

Alþjóðadagur iðjuþjálfa

Mánudaginn 27. október er Alþjóðadagur iðjuþjálfa.

Í því tilefni verður iðjuþjálfun með kynningu á starfi sínu á Torginu á Eir þann dag milli 13:00 – 15:00. Öll velkomin.

Hjá Eir, Skjóli og Hömrum starfa 8 iðjuþjálfar, 7 aðstoðarmenn iðjuþjálfa og einn músíkmeðferðafræðingur. Þau sinna fjölbreyttu starfi sem snýr m.a. að því að styðja íbúa á hjúkrunarheimilum, skjólstæðinga í sérhæfðri dagþjálfun, skjólstæðinga á Eir endurhæfingu og einstaklinga í heimaþjónustu við að viðhalda færni og efla sjálfstæði sitt í daglegu lífi.

Hlutverk iðjuþjálfa á hjúkrunarheimilunum snýr m.a. að því að meta áhuga og færni einstaklingsins til þátttöku í þeirri iðju sem hefur þýðingu fyrir þau og veitir þeim lífsfyllingu. Boðið er upp á fjölbreytta einstaklings- og hópþjálfun með það að markmiði að auka eða viðhalda færni einstaklings, auka þátttöku og styðja við sjálfstæði og vellíðan hvers einstaklings út frá hans getu og áhuga.

Á Eir endurhæfingu er hlutverk iðjuþjálfa að meta færni og getu einstaklingsins við daglegar athafnir og í samvinnu við einstaklinginn eru sett markmið með það að leiðarljósi að efla sjálfsbjargargetu og auka lífsgæði. Iðjuþjálfar veita ráðgjöf um aðlögun heimilis til að tryggja öryggi og auka sjálfstæði í eigin búsetu. Iðjuþjálfar meta þörf fyrir hjálpartæki, kenna á og þjálfa í notkun þeirra og  sjá um umsóknir þegar við á.

Iðjuþjálfi í dagþjálfun vinnur að því að efla færni, sjálfstæði og lífsgæði skjólstæðinga með einstaklingsmiðaðri nálgun. Starfið felur í sér mat á færni og getu, gerð og eftirfylgni íhlutunaráætlana og aðlögun umhverfis. Lögð er áhersla á þátttöku í iðju sem er einstaklingnum mikilvæg og tengist hans áhugasviði. Markmiðið er að viðhalda líkamlegri, vitrænni og félagslegri færni. Iðjuþjálfi metur einnig þörf fyrir hjálpartæki, útvegar þau og fylgir notkun þeirra eftir.

Hlutverk iðjuþjálfa í heimaþjónustu og Gott að eldast er að meta nýjar beiðnir um þjónustu í samvinnu við þverfaglegt teymi og ákveða hvaða þjónusta hentar best. Iðjuþjálfi metur færni einstaklinga og þjónustuþörf þeirra til að ákveða hvaða þjónusta á við. Hann skoðar heimili með tilliti til aðlagana og hjálpartækja sem auka sjálfsbjargargetu, sækir um þau, setur upp og kennir notkun. Markmið verkefnisins Gott að eldast er að stuðla að endurhæfingu í heimahúsi þar sem iðjuþjálfi leggur m.a. fyrir COPM til að greina iðjuvanda og hvað skiptir einstaklinginn mestu máli. Þá veitir hann fræðslu til starfsfólks og fagaðila m.a. til að stuðla að öruggri líkamsbeitingu og vinnuvistfræði í heimahjúkrun.

Iðjuþjálfar hjá Eir, Skjóli og Hömrum sinna ómetanlegu starfi við að efla sjálfstæði, lífsgæði og vellíðan einstaklinga. Á Alþjóðadegi iðjuþjálfa fögnum við fjölbreyttu og mikilvægu starfi þeirra og hvetjum alla til að kynna sér það nánar.

Deila

Meira