Search

Kaupmannasamtök Íslands færa Eir rausnarlega gjöf

Eir tók nýverið á móti veglegri gjöf frá Kaupmannasamtökum Íslands sem mun nýtast íbúum heimilisins með margvíslegum hætti. Gjöfin samanstendur af fallegum útihúsgögnum, þremur HUR styrkþjálfunartækjum og vinnustól til iðjuþjálfunar. Útihúsgögnin eru ætluð til almennrar notkunar fyrir íbúa, en þjálfunartækin munu jafnframt nýtast íbúum hjúkrunarheimilisins, skjólstæðingum endurhæfingadeildar og íbúum öryggisíbúða Eirar í Hlíðarhúsum.

HUR tækin eru sérhönnuð æfingatæki sem nota loftþrýstingsviðnám í stað hefðbundinna lóða. Sú tækni tryggir jafnt og liðvænt álag í gegnum allan hreyfiferilinn, eykur öryggi og gerir kleift að stilla álag nákvæmlega eftir þörfum hvers notanda. Tækin henta sérstaklega vel til endurhæfingar og þjálfunar eldri einstaklinga. Með stafrænu stýrikerfi er auðvelt að stilla viðnám, fylgjast með árangri og aðlaga þjálfun að hverjum og einum.

Í tilefni afhendingar gjafarinnar komu fulltrúar Kaupmannasamtaka Íslands í heimsókn á Eir á dögunum. Þar kynntu þeir sér starfsemina og fengu jafnframt sýnikennslu á nýju æfingatækin. Meðfylgjandi myndir eru teknar við þetta tilefni.
„Tækin munu nýtast okkur afar vel í markvissri og einstaklingsmiðaðri endurhæfingu og stuðla að bættri hreyfigetu, sjálfstæði og lífsgæðum skjólstæðinga okkar,“ segir Björg Hákonardóttir, yfirsjúkraþjálfari.

Eir þakkar Kaupmannasamtökum Íslands innilega fyrir höfðinglega gjöf.

Deila

Meira

Alþjóðadagur iðjuþjálfa

Mánudaginn 27. október er Alþjóðadagur iðjuþjálfa. Í því tilefni verður iðjuþjálfun með kynningu á starfi sínu á Torginu á Eir þann dag milli 13:00 –